Englarnir voru með Alexander.

Hæ,

Alexander var alveg einstaklega heppinn í gær. Hann var að hjóla frá sjoppunni í gær með poka fullan af góðgæti. Hann var á leið yfir töluvert fjölfarna umferðagötu og varð fyrir bíl. Hann kastaðist líklega upp á húddið og á framrúðuna og þaðan til hliðar við bílinn. Hann slapp með skrámur og marbletti. Hreinlega ótrúlegt að hann skildi ekki slasast meira. Hjálmurinn hans er brotinn á tveimur stöðum og sannast enn og aftur hversu mikilvægur hjálmurinn er.
Alexander greyjið hringdi í mig og var ansi mikið í sjokki, en stóð sig samt rosa vel og var í upphafi meira um að ég væri ekki að hafa of miklar áhyggjur af sér áður en hann lýsti fyrir mér hvað gerðist. Ég kom svo um leið og ég gat og Addý skutlaði mér. Þetta var bara rétt hjá þar sem við vorum í heimsókn hjá Heiðu.
Ökumaðurinn hafði hringt á lögregluna og sjúkrabíll kom líka. Þegar þeir heyrðu hversu mikið högg þetta hefur verið þá var Alexander til öryggis settur í hálskraga og á börur. Svo fór ég með sjúkrabílnum upp á sjúkrahús þar sem hann var skoðaður frá toppi til táar. Enn og aftur er það ótrúlegt að hann hafi ekki brotið neitt, eða fengið önnur og verri meiðsl en þessar rispur.
Ég sagði líka við hann að "englarnir hefðu verið með honum í dag".

Ég hringdi í Sólrúnu frá Sjúkrabílnum og hún kom strax upp á neyðarmóttöku.

Alexander var látinn vera yfir nótt og ég fékk að sofa þar líka á meðan Dísa og Matthías fengu að gista hjá Heiðu.

Nú liggur Alexander hérna í rúminu mínu inn í stofu og er að jafna sig. Hann er afskaplega glaður yfir því að hafa verið með hjálminn því að hann hefur líklega bjargað honum í gær.

Ég verð að viðurkenna það að maður er nú bara í hálfgerðu sjokki yfir þessu og bara ótrúlega þakklátur fyrir að fór ekki verr.

kveðja í bili,

Arnar Thor

Ummæli

Nafnlaus sagði…
úffúffúfff
gott að hann er heill á húfi, ég fékk næstum hjartaáfall að lesa þetta, ég bið rosa vel að heilsa litlu rúsínunni minni,
Rúnabrúna...
Heiðrún biður líka að heilsa....
Nafnlaus sagði…
Og ég bið líka að heilsa krúsidúllunni hennar frænku sinnar og vona að honum batni fljótt og vel. Ég knúsa hann í huganum.
Bið auðvitað líka að heilsa hinum hetjunum á bænum :)
Ásrún
Heiðagella sagði…
Hvað segirðu, er ekkert uppdeit á leiðinni..:o)

Vinsælar færslur